top of page

Málfræði

 

Öll tungumál eiga sér ákveðnar reglur um það hvernig þau eru notuð. Málfræðireglur tungumála eru misflóknar. Til dæmis er íslensk málfræði tiltölulega flókin miðað við enska málfræði. Má þar nefna hluti eins og fallbeygingu nafnorða og kyn lýsingarorða, en þessir hlutir eru mun einfaldari á ensku en á íslensku.

Dæmi:

Hér er gulur hestur

um gulan hest

frá gulum hesti

til guls hests

 

Á ensku er engin fallbeyging, þannig að sami hlutur myndi hljóma svona á ensku:

 

Here is a yellow horse

About a yellow horse

From a yellow horse

To a yellow horse

 

Glöggir hafa kannski tekið eftir því að lýsingarorðið yellow og nafnorðið horse eru alltaf eins - sem sagt, engin fallbeyging.

 

Lýsandi eða skipandi málfræði

Menn hafa misjafnar skoðanir á málfræði. Sumir telja að málfræðireglur séu óumbreytanlegar og segi til um hvernig EIGI að tala. Öll málnotkun sem ekki samræmist þessum reglum sé því röng. Það kallast skipandi málfræði.

Aðrir nota málfræði til þess að lýsa því hvernig fólk talar í raun og veru. Skoðun þeirra er sú að það sé fólkið sem talar málið sem ráði því hvernig það skuli notað og ef fólk ákveður að breyta því hvernig það talar þá sé nauðsynlegt að breyta málfræðireglunum.

Tökum dæmi:

Meðal íslenskra ungmenna tíðkast nú það sem málfræðingar kalla hina nýju þolmynd. Hún lýsir sér svona:

Það var sagt mér að ég ætti ekki að mæta í sund í dag.

Skipandi málfræðingar rífa hár sitt þegar þeir heyra svona lagað og leiðrétta. Þeir segja að rétt sé:

Mér var sagt að ég ætti ekki að mæta í sund í dag.

Lýsandi málfræðingar taka þessa nýju þolmynd hins vegar góða og gilda og segja að fyrst fólk tali svona, þá sé íslensk málfræði þar með orðin svona.

 

Reglur og undantekningar

Málfræði er í stuttu máli samansafn af reglum. Ef tungumál væru einföld og breyttust ekki, væri lítið mál að læra málfræði, því þá þyrfti maður bara að leggja á minnið nokkrar reglur og einn, tveir og bingó, þá kynni maður að tala rétt.

Það er hins vegar ekki þannig. Tungumál breytast og þróast, stundum hratt en stundum hægt. Það þýðir að með nánast öllum málfræðireglum eru til undantekningar.

Til þess að kunna góð skil á málfræði þarf maður því að kunna bæði reglurnar OG undantekningarnar.

Hér verður alltaf byrjað á því að kenna reglurnar, en ef um undantekningar er að ræða þá verða þær taldar upp og útskýrðar.

 

Að lokum

Málfræði verður seint talin sérlega skemmtileg. Tökum því öll höndum saman og einsetjum okkur að klára þetta efni á sem stystum tíma. 

 

 

Námsefnið er tekið af vef Björns Gunnlaugsonar 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

bottom of page